Hvar verður vindorkugarðurinn staðsettur?
Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð
Hvað heitir vindorkuverkefnið?
Vindorkuverkefnið að Hróðnýjarstöðum hefur hlotið nafnið Storm 1.
Hvað er vindorkugarður?
Þegar um fleiri en eina vindmyllu á sama svæði er að ræða er talað um vindorkugarð. Stærð vindorkugarðs getur hlaupið á fáum til margra vindmylla.
Hvað eru Hróðnýjarstaðir langt frá næsta þéttbýli, Búðardal?
Í um 10 km fjarlægð frá Búðardal í norð-austri.
Hvað verða margar vindmyllur settar upp?
Endanlegan fjölda vindmylla er erfitt að tiltaka nákvæmlega á þessu stigi enda veltur hann á staðbundnum mælingum (Met Mast), stærð (aflgetu) hverra vindmyllu og lokahönnun vindorkugarðsins. Ef reistar verða þær vindmyllur sem nú er miðað við í áætlunum, þ.e. af tegundinni SG-132 (3.465 MW hver) þá er fjöldinn um 24 stk. Ef aðrar stærri vindmyllur verða fyrir valinu þá duga um 18 vindmyllur.
Hvenær má gera ráð fyrir að fyrstu vindmyllurnar rísi að Hróðnýjarstöðum?
Erfitt er að segja til um það nákvæmlega á þessu stigi. Verkefnið hefur verið í vinnslu síðan árið 2016. Þegar öll leyfi liggja fyrir og verkefnið hefur farið í gegnum Mat á umhverfisáhrifum (MÁU) þá er hægt að hefjast handa við að reisa vindmyllur. Fyrirtækið áætlar að það geti orðið í fyrsta lagi árið 2021.
Hver er framkvæmdaaðili verkefnisins?
Storm Orka er ungt íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og uppbyggingu verkefna í endurnýjanlegri orku. Stefna fyrirtækisins er að framleiða orku með lágmarks neikvæðum umhverfisáhrifum, í nánu samstarfi við nærumhverfið, samfélaginu öllu til hagsældar. Að baki Storm Orku standa bræðurnir Magnús og Sigurður Jóhannessynir. Storm Orka er að fullu í eigu bræðranna.
Hver er bakgrunnur eigenda Storm Orku?
Magnús er framkvæmdastjóri félagsins en hann er með meistaragráðu í rekstrarhagfræði frá Álaborgarháskóla og á að baki 25 ára reynslu í orkugeiranum m.a. sem framkvæmdastjóri America Renewables og Iceland America Energy og aðstoðarframkvæmdastjóri (COO) hjá Enex. Sigurður leiðir vinnu við mat á umhverfisáhrifum en hann er umhverfis- og auðlindafræðingur frá Háskóla Íslands og er nú að ljúka doktorsnámi í umhverfisfræði við sama skóla. Sigurður hefur áður starfað sem sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og stýrt rannsóknum við Háskóla Íslands.
Hverjir eru ráðgjafar Storm Orku í Storm 1 verkefninu?
Storm Orka nýtur stuðnings vindmylluframleiðandans Siemens Gamesa Renewable Energy (starfsmannafjöldi um 24.000), sem er leiðandi aðili á heimsvísu í lausnum á vinnslu raforku með vindafli. Starfsmenn fyrirtækisins eru Storm Orku innan handar um alla þætti framkvæmdarinnar, svo sem mat á umhverfisáhrifum, byggingaframkvæmdir og mat á vinnslugetu vindmylla , vindmælingar, hönnun mannvirkja, bestun o.s.frv. Þá hefur verkfræðistofan Lota veitt Storm Orku ráðgjöf varðandi tengingu við flutningsnetið. Jafnframt hefur verkfræðistofan EFLA aðstoðað við mat á umhverfisáhrifum og skipulagsmálum. Náttúrustofa Vestfjarða annast rannsóknir og mat á áhrifum á gróður, Verkís annast fuglarannsóknir og Fornleifafræðistofan sér um úttekt á fornleifum á svæðinu.
Hver á landið sem vindmyllurnar verða reistar á?
Í maí 2017 festu bræðurnir Magnús og Sigurður (ásamt föður þeirra, Jóhannesi Sigurðssyni) kaup á landi Hróðnýjarstaða í Dölum í Dalasýslu með það fyrir augum að kanna möguleika á nýtingu vindafls til raforkuvinnslu.
Eru Magnús og Sigurður leppir fyrir erlent stórfyrirtæki?
Nei, Magnús og Sigurður eru það ekki en njóta aðstoðar ýmissa góðra aðila s.s Siemens Gamesa Renewable Energy, eins stærsta vindmylluframleiðanda í heimi, Lotu, Eflu og Verkís verkfræðistofa, og margra annarra við undirbúning Storm 1 verkefnisins.
Af hverju varð þessi staðsetning fyrir valinu?
Staðarval er lykilatriði í byggingu vindorkugarða og ítarlegar forkannanir voru gerðar áður en fest voru kaup á landinu. Hróðnýjarstaðalandið hentar einkar vel fyrir vindorkugarð enda uppfyllir það allar helstu kröfur sem gerðar eru til slíkra svæða, s.s. sterka og stöðuga vinda, nálægð við háspennuflutningskerfi Landsnets, flutningsgetu háspennulína, fjarlægð frá mannabústöðum, fjarlægð frá ferðamannastöðum, fjarlægð frá alfaraleiðum (án þess að vera á víðerni), utan mikilvægra fuglasvæða, utan jarðvirknisvæða (s.s. jarðskjálfta og eldgosa), fjarlægð frá flugvöllum og fjarskiptasvæðum, hagstæð yfirborðslögun lands, nægt rými, fjarlægð frá þéttbýli, utan verndarsvæða s.s. vatnsverndar, friðlýstra svæða og á svæði sem þarfnast styrkari efnahagslegra stoða.
Hvað er áætlað að Storm 1 framleiði mikið rafmagn?
Áætlað afl verkefnisins er 80 – 130 MW og orkuframleiðsla á bilinu 400 – 600 GWst á ári. Endanleg stærð verkefnisins er ekki ljós á þessu stigi enda ræðst hún af ýmsum ytri þáttum svo sem þróun orkueftirspurnar auk mögulegra takmarkandi þátta svo sem umhverfisþátta. Einnig er mögulegt að verkefninu verið áfangaskipt og mun því framleiðslan aukast í samræmi við það.
Eru áhrif vindorkugarðsins afturkræf fyrir náttúruna?
Já. Förgun vindmylla verður hluti af þjónustusamningi Storm I við Siemens Gamesa sem mun sjá verkefninu fyrir vindmyllum. Vindmylluframleiðendur endurvinna gamlar myllur og sár í gróðurþekjunni þarf að græða. Gerð verður grein fyrir þessum frágangi í frummatsskýrslu.
Er mikill hávaði frá vindmyllum?
Þær vindmyllur sem hafa verið nefndar sem mögulegir kostir fyrir Storm I á þessu stigi hafa hljóðstig á bilinu 97 – 107 dB alveg við túrbínuna, í þeirri hæð sem hún verður. Hljóðstig fer svo lækkandi eftir því sem nær dregur jörðu og fjarlægð frá túrbínunni eykst. Myndin hér að neðan sýnir myndræna framsetningu á hljóðstyrk vindmylla og ýmissa algengra rafmagnstækja. Myndin sýnir að hljóðið frá vindmyllum er komið niður í 40dB(A) í 400 metra fjarlægð frá myllunum. Í reglugerð 724/2008 um hávaða kemur fram að hávaði á skilgreindum kyrrlátum svæðum í dreifbýli sem ætluð eru til útivistar, eigi að vera undir 40 dB(A) Lden – sem er hávaðavísir fyrir heildarónæði (hávaðavísir að degi – kvöldi – nóttu).

Er hægt að komast hjá öllum vandræðum vegna hljóða í vindmyllum?
Richard R. James og George W. Kamperman (Accoustic consultants) telja að komast megi hjá öllum vandræðum vegna hljóða í vindmyllum með því að staðsetja þær í 2 km (1,25 mílur) fjarlægð frá byggð (James and Kamperman, 2008).
Munu nágrannar verkefnisins verða varir við hávaða frá vindmyllunum?
Mjög ólíklegt er að svo verði. Stefnt er að því að við hönnun garðsins og staðsetningu vindmyllanna að engin mylla sé í minni fjarlægð frá næsta lögbýli við Hróðnýjarstaði en sem nemur 2-3 km2. Þetta ætti að tryggja að hljóðstig við næstu bæi verði vel innan þeirra marka sem gefin eru upp í reglugerð 724/2008.
Verður eitthvað skuggaflökt eða glampaáhrif frá vindmyllunum?
Nei, ólíklegt er talið að skuggaflökt og glampaáhrif verði til vandræða vegna fjarlægðar frá næstu bæjum.
Hvað er langt í næstu jarðir og mannabústaði?
Næsta bygging frá framkvæmdasvæðinu er í um 2 km fjarlægð. Næstu lögbýli sem hafa búsetu allt árið um kring eru í 3 og 4 km fjarlægð frá næstu vindmyllunum.

Hver er ávinningur samfélagsins af Storm 1 verkefninu?
Ávinningur samfélagsins er margþættur. Í fyrsta lagi mun orkuöryggi á svæðinu styrkjast verulega. Ef svo illa vill til að landbrot á suðurlandi takmarka orkuflutning frá vatnsaflsvirkjunum þá er gríðarlegt öryggi fyrir svæðið að hafa orkuframleiðslu hér sem getur sinnt þörfum samfélagsins fyrir orku. Í öðru lagi þá munu skattar af verkefninu fara langt í að tvöfalda framkvæmdafé sveitarfélagsins á hverju ári. Í þriðja lagi þá mun verkefnið skapa störf og vinnu fyrir heimamenn, og er reyndar nú þegar farið að gera það. Allt þetta mun styrkja byggðina og efla Dalabyggð í a.m.k. 20 til 25 ár eftir að verkefnið fer af stað.
Skerðast lífsgæði nágranna vegna aðflutninga til verkefnisins?
Á framkvæmdatíma mun koma til nokkurra flutninga að verkefnasvæðinu s.s. vegna aðflutnings túrbína, turna, steypustyrktarjárns og steypu sem fer í undirstöður. Þessi aðflutningur mun vissulega auka umferð meðan á þessu stendur en er þó bundinn við framkvæmdatíma. Framkvæmdatíma verður að líkindum skipt í tvennt og nær yfir tvö sumur því illmögulegt er að reisa vindmyllur að vetri til. Núverandi vegur er malarvegur sem rykast auðveldlega upp á þurrum degi þegar hann er ekinn með tilheyrandi óþægindum fyrir nágranna. Eins og fram kemur annars staðar þá er líklegt að sett verði bundið slitlag á þann veg sem verður fyrir valinu og því vandséð að aukin umferð um bundið slitlag skapi mikil óþægindi fyrir nágranna, önnur en sjónræn og hljóðræn þegar bílar aka fram hjá.
Má gera ráð fyrir sjónrænum áhrifum af verkefninu?
Sjónræn áhrif eru hluti af þeim rannsóknum sem gerðar verða sem hluti af mati á umhverfisáhrifum. Nákvæmlega hver þessi áhrif verða liggur ekki fyrir á þessu stigi en ljóst er að þau verða einhver.
Hvaða leið yrði notuð fyrir flutning aðfanga að verkefnissvæðinu?
Tveir vegir liggja að Hróðnýjarstöðum og verða báðir skoðaðir betur, annars vegar vegur 587 Hjarðarholtsvegur og hins vegar gamli línuvegurinn sem liggur fram hjá Ljárskógum. Rannsakað verður frekar hvor leiðin hentar betur en líklegt er að gera þurfi einhverjar endurbætur á þeim vegi sem verður fyrir valinu, t.d. er hugsanlegt að á hann verði sett bundið slitlag.
Er verkefnið á miklu ferðmannasvæði?
Storm I verkefnið er staðsett á landbúnaðarsvæði og ekki mikið um ferðamennsku né útivist á svæðinu.
Munu vindmyllur hafa áhrif á sauðféð?
Ekki eru taldar líkur á að verkefnið hafi veruleg áhrif á sauðféð sem gengur á landi Hróðnýjarstaða. Dæmi er um það annars staðar á Íslandi að sauðfé og orkuver fari vel saman svo sem við Kröflu, þar sem sauðfé er beitt innan um lagnir og jarðhitaholur.
Er vindorka samkeppnishæf við aðra íslenska orkugjafa s.s. vatnsafl eða jarðvarma?
Íslendingar hafa virkjað flesta ódýrustu orkukostina nú þegar. Orka frá dýrari vatnsafls- eða jarðvarmakostum þrýstir orkuverði upp. Á sama tíma hefur framleiðslukostnaður lækkað verulega á vindmyllum þannig að nú er svo komið að vindorka er orðin samkeppnishæf við aðra íslenska orkukosti.
Er vindorka hrein orka?
Enn sem komið er hefur mannkyni ekki tekist að framleiða orku án einhverra neikvæðra umhverfisáhrifa. Vindorka er þó ein hreinasta og sjálfbærasta leiðin sem komið hefur fram. Í lok endingartíma, sem getur verið um 20-25 ár, eru áhrif verkefnisins að fullu afturkræf.
Af hverju vindorka og af hverju núna?
Í dag erum við Íslendingar að flytja inn hluta þeirra orku sem hér er notuð erlendis frá í formi jarðefnaeldsneytis. Á árinu 2017 nam þessi innflutta orka um 19% af heildarorkunotkun Íslands (os.is). Við verðum lítið vör við umhverfisáhrif sem þessir innfluttu orkugjafar hafa í för með sér enda eru þau greinilegust í löndunum þar sem framleiðsla þeirra fer fram. Má segja að í raun flytjum við út umhverfisáhrifin af þessum tæpa fimmtungi af orkunotkun okkar. Til umræðu hefur komið að skipta um orkugjafa í samgöngum og iðnaði enda óumdeild hin jákvæðu umhverfisáhrif sem hlytust af slíkri framkvæmd. Eigi slík umskipti að vera möguleg er áætlað að koma þurfi til 660 til 880 MW af nýju afli (VSÓ Ráðgjöf, 2016). Markmið Storm Orku er að Storm I framleiði rafmagn sem nýtist til þessara umskipta og auki um leið orkuöryggi landsins og ekki síst Vesturlands.
Þarf að meta umhverfisáhrif Storm 1 verkefnisins?
Orkuver með uppsett afl sem nemur 10 MW eða meira eru háð lögum um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Eins og kemur fram í lögunum skal framkvæmdaraðili gera áætlun um slíkt mat og fá Skipulagsstofnun til álitsgjafar. Áætluninni er ætlað að: “…lýsa framkvæmdinni, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma og gefa upplýsingar um skipulag á framkvæmdasvæði og hvernig framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum. Þar skal og vera áætlun um á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis lögð verði áhersla, hvaða gögn liggi fyrir og áætlun um kynningu og samráð. Framkvæmdaraðili skal kynna tillögu að matsáætlun umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun.”
Hvaða leyfa þarf að afla áður en hafist er handa við byggingu verkefnisins?
Auk mats á umhverfisáhrifum er verkefnið jafnframt háð eftirfarandi leyfum:
– Virkjunarleyfi til að reisa og reka raforkuver samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003.
– Framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags samkvæmt 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
– Byggingarleyfi frá byggingarfulltrúa í viðkomandi sveitarfélagi samkvæmt 9.gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.
– Starfsleyfi sem Heilbrigðisnefnd Vesturlands veitir samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og 5. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit.
– Leyfi Minjastofnunar Íslands ef við á vegna fornleifa, samkvæmt 21. gr. laga nr. 80/2012, um menningarminjar.
Þessu til viðbótar er Flugmálastjórn heimilt að krefjast þess að vindmyllurnar verði merktar ef þær teljast vera hugsanlega hætta fyrir flugumferð sbr. gr. 68 í lögum nr. 60/1998.
Þarf að breyta aðalskipulagi Dalabyggðar vegna verkefnisins?
Já, sótt hefur verið um breytingu á aðalskipulagi á hluta skilgreinds athugunarsvæðis úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði í samræmi við skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem kveður á um að svæði sem nýtt er til orkuöflunar með vindmyllum skuli skilgreint sem iðnaðarsvæði.
Er hægt að nota landið til landbúnaðar eftir aðalskipulagsbreytingu?
Já, þó svo umbeðin breyting á aðalskipulagi kveði á um breytingu á þessu landssvæði í iðnaðarsvæði þá mun meginþorri svæðisins verða nýttur eftir sem áður sem upprekstrar- og beitiland fyrir sauðfé. Ræktuðum túnum sauðfjárbúsins að Hróðnýjarstöðum verður ekki breytt í iðnaðarsvæði.
Hvað má gera ráð fyrir að stórt svæði fari undir vindmyllurnar (nettó)?
Samtals nettó stærð svæðisins sem á endanum fer undir vindmyllurnar, þ.e. undirstöðupalla, línur og spennistöð nemur gróflega áætlað 1 til 2 hekturum – miðað við fulla stærð garðsins (130 MW).
Hvað þarf að byggja mikið af vegum vegna verkefnisins?
Áætlað er að byggja um 14 km af nýjum vegum, m.a. milli vindmylla.
Hvað fer mikið land undir nýju vegina?
Miðað við C tegund vega Vegagerðarinnar (með tveimur akreinum, 7 m ≤heildarbreidd ≤10 m) og D tegund vega (með einni akrein og útskotum) eru þá um að ræða um 5 – 10 hektara af flatarmáli lands sem þarf undir nýja vegi.
Hvað fer mikið efni í nýju vegina?
Áætlað er að mögulega 6 – 12.000 m3 af efni. Afar erfitt er að áætla þessar stærðir á þessu stigi enda á eftir að framkvæma jarðkönnun og hanna vindgarðinn. Nánar verður greint frá þessum þáttum í frummatsskýrslu. Leitast verður við að nota þá vegaslóða sem fyrir eru á svæðinu eins og mögulegt er til að lágmarka rask.
Á hvers konar landi verður verkefnið?
Land Hróðnýjarstaða er alls um 1700 ha að stærð og samanstendur að mestu af móum, mýrum og melum á blágrýtisklöpp.
Hvaðan kemur efni í nýju vegina og undirstöður undir vindmyllur?
Burðarhæft fyllingarefni þarf til slóðagerðar, undirstöður og í plön við möstur, mismikið eftir útfærslum. Gerð verður nánari grein fyrir áætlaðri efnisþörf og staðsetningu efnistökustaða í frummatsskýrslu. Til að draga úr skerðingu á gróðri vegna efnistöku verður reynt að nota efni úr opnum námum, sjá yfirlit úr námuskrá Vegagerðarinnar (Vegagerðin, 2018). Námurnar sem eru skráðar þar eru allar við þjóðveginn. Við Þverá sem rennur frá Neðstavatni gætu verið malar- og sandlög sem gætu nýst sem efnistökusvæði. Líklega mun þó þurfa að vinna mest allt fyllingarefni úr klapparnámum sem staðsettar yrðu innan landamerkja Hróðnýjarstaða. Slíkt myndi minnka aðflutninga til muna og minnka þannig umhverfisáhrif. Frummatsskýrsla mun gera grein fyrir væntum umhverfisáhrifum efnistöku.
Hvað þarf mikið efni í undirstöður undir vindmyllurnar?
Steypu þarf í undirstöður undir myllurnar en hversu mikið skýrist af lokahönnun garðsins. Leitað verður leiða til minnka steypunotkun, með notkun ankera en möguleikar á notkun þeirra ráðast af jarðvegsgrunninum sem myllurnar standa á. Í hvern undirstöðupall sem þarf að steypa fara 541 m3 af steypu og 62,9 tonn af stáli. Fjarlægja þarf um 1.300 m3 af jarðvegi á um 490 m2 svæði. Þegar búið er að steypa pallinn er um 60% eða um 760 m3 af hinum fjarlægða jarðvegi notaður til að hylja pallinn aftur. Mikilvægt er að loka þessum sárum sem myndast í gróðurþekjunni og mun Landgræðslan vera Storm Orku innan handar til ráðgjafar og gæta þess að vandað verði til þessara verka eins og mögulegt er.
Tengist Storm 1 vindorkugarðurinn við háspennukerfi Landsnets?
Já. Fyrirhugað er að Storm I verkefnið tengist flutningsneti Landsnets í gegnum Glerárskógalínu 1 (GL1) en línan gengur í gegnum land Hróðnýjarstaða og liggur því um framkvæmdasvæðið.
Hvernig lína er Glerárskógalína 1?
Glerárskógalína 1 (GL1) er 132 kV háspennulína.
Þarf að uppfæra Glerárskógalínu 1 vegna verkefnisins?
Nei, ekki er fyrirséð að uppfæra þurfi raflínuna vegna Storm 1.
Þarf að byggja nýtt tengivirki fyrir verkefnið?
Fyrirhugað er að byggja nýtt tengivirki fyrir verkefnið þar sem spennan sem safnað er frá vindmyllunum er hækkuð upp í flutningspennuna á GL1, þ.e 132 kV. Áætlað er að staðsetning tengivirkisins verði innan verkefnasvæðisins.
Hvað þarf mikið efni í nýja tengivirkið og hver eru áætluð umhverfisáhrif þess?
Á meðan hönnun garðsins liggur ekki fyrir er erfitt að meta vænt umhverfisáhrif en gróf áætlun gerir ráð fyrir 200 – 400 m2 svæði, 200 – 400 m3 af jarðvegi sem þarf að fjarlægja og 200 – 400 m3 af aðfluttu efni í púða.
Hver er áætlaður starfs- eða líftími vindorkugarðsins?
Almennt er gert ráð fyrir að líftími vindorkugarðs sé milli 20 og 25 ár að hámarki.
Er verkefnið á jarðskjálftasvæði?
Nei, svæðið er langt frá plötuskilum Evrasíu- og Norður-Ameríku jarðskorpuflekanna. Berggrunnur er basalt frá Tertíer tíma, líklega á milli 6 – 7 milljón ára gamall.
Í hvaða hæð yfir sjávarmáli verður framkvæmdasvæðið?
Land framkvæmdasvæðisins, sem er um 420 hektarar að stærð, er nokkuð jafnslétt og liggur það í 100 metra hæð yfir sjávarmáli vestast en hækkar eftir því sem austar dregur upp Botnalaxahæðirnar og nær mest í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli.
Af hverju er verkefninu valinn staður í landbúnaðarbyggð, er skortur á landrými annars staðar?
Ástæða staðsetningar á vindmyllum á þessum stað er ekki vegna skorts á landrými annars staðar. Vindafar ræður miklu um staðsetningu á framkvæmdum sem þessum og er land Hróðnýjarstaða vel til þess fallið að nýta til framleiðslu á raforku með vindafli. Fjölmargir aðrir þættir ráða því að þessi staðsetning er talin hentug s.s. nálægð við háspennulínur, fjarlægð frá verndarsvæðum s.s. vatnsvernd, landgerðin s.s. flatlendi, og fleiri þættir sem gert er grein fyrir í köflum 1.3 og 3.7 um staðarval og framkvæmdakosti í Tillögu að matsáætlun sem hægt er að nálgast á heimasíðum Storm Orku og Skipulagsstofnunar.
Þarf að breyta rafmagni í þriggja fasa rafmagn að Hróðnýjarstöðum?
Einfasa rafmagn er nú að Hróðnýjarstöðum sem takmarkar notkun stærri og orkufrekari tækja. Samkvæmt grófri áætlun frá Rarik sem sér um rafmagnstengingu að bænum er hægt að skipta yfir í þriggja fasa rafmagn. Slíkt verður væntanlega gert áður en til framkvæmda kemur.
Þarf að uppfæra háspennulínur Landsnets vegna verkefnisins?
Samkvæmt upplýsingum sem Storm Orka hefur aflað þá þarf ekki að uppfæra línur til að sinna verkefninu enda hefur stærð verkefnisins verið sniðin að burðargetu núverandi háspennulínu.
Hvað er framkvæmda- og athugunarsvæði umhverfisáhrifa stórt?
Jörðin Hróðnýjarstaðir er um 1700 hektarar að stærð. Framkvæmdasvæði Storm 1 verkefnisins verður um 420 hektar að stærð. Áætlað er að rannsaka mun stærra landsvæði innan landamerkja Hróðnýjarstaða vegna Storm I en mun á endanum verða notað undir vindorkugarðinn, eða um 1200 hektara.
Af hverju er rannsóknarsvæðið mun stærra en áætlað framkvæmdasvæði Storm 1?
Þetta er gert til að hanna megi verkefnið með hliðsjón af þeim niðurstöðum sem koma úr rannsóknum sem gerðar verða á svæðinu. Ef ákveðið svæði innan hins skilgreinda athugunarsvæðis er viðkvæmara en annað er hægt að forðast að raska því með því að staðsetja myllurnar utan þess. Með þessu má lágmarka umhverfisáhrif vindorkugarðsins enn frekar. Gróflega markast áætlað athugunarsvæði af Slýjuvatni í vestri og Lambhagavatni í suðri og liggur þannig á nyrðri og eystri hluta landsins.