Umhverfismatsskýrsla Storm 1

Stormorka ehf. áformar að reisa 118,8 MW vindorkuver á 415 ha svæði í landi Hróðnýjarstaða í Dalabyggð. Gert er ráð fyrir að reisa 18 vindmyllur á framkvæmdasvæðinu og að afl hverrar verði 6,6 MW. Hæð vindmyllanna verður að hámarki 167,5 m miðað við spaða í hæstu stöðu með 90 m turnhæð og spaðalengd 77,5 m. Að hverri vindmyllu verður lagður vegur og við hverja vindmyllu þarf steypta undirstöðu (allt að 16-30 m í þvermál), kranaplan og geymslusvæði. Vindmyllur verða tengdar við safnstöð raforku með 33 kV jarðstrengjum. Á þessu stigi er frekar reiknað með að frá safnstöð muni koma um 35 metra langur, 132 kV loftlínustrengur sem tengist inná Glerárskógalínu sem gengur í gegnum framkvæmdasvæðið frekar en að lagður verði um 5 km jarðstrengur að Glerárskógatengivirki. Framkvæmdin krefst 12,5 km vegagerðar innan framkvæmdasvæðis og styrkinga á Hjarðarholtsvegi auk þess sem gert er ráð fyrir að skipta þurfi út einni brú á leiðinni frá löndunarstað til framkvæmdasvæðis. Vindmylluíhlutum verður landað á Grundartangahöfn og vindmyllurnar fluttar í pörtum á framkvæmdasvæðið með sérstökum flutningabílum. Gert er ráð fyrir að flutningur íhluta frá Grundartanga taki 9 vikur miðað við að fara þurfi 54 ferðir með fjóra flutningabíla í lest og hver ferð taki 8 klst. Samsetning vindmylla fer fram á staðnum. Áætlað er að bygging vindorkugarðsins taki um 2 ár og er m.a. gert ráð fyrir steypistöð og vinnubúðum á framkvæmdasvæðinu. Áætluð heildarefnisþörf er um 200.000 m³ og er gert ráð fyrir að efni verði fengið úr tveimur nýjum námum innan framkvæmdasvæðisins. Frekari upplýsingar um framkvæmdina og mat Stormorku á umhverfisáhrifum hennar má finna í umhverfismatsskýrslu fyrirtækisins, sjá hér https://skipulagsgatt.is/issues/2025/916

Vakin er athygli á að Stormorka ehf. stendur fyrir kynningarfundi á umhverfismatsskýrslu þann 21. ágúst 2025 kl. 20:00 í Dalabúð. Allir sem vilja kynna sér fyrirhugaða framkvæmd eru velkomnir.

Blog at WordPress.com.

Up ↑